139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur töluvert verið minnst á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns þingmannanefndarinnar, þar sem hann gagnrýndi mjög þetta frumvarp, tilurð þess, með hvaða hætti það er lagt fram. Hann fór yfir það að hér væri í húfi sjálfstæði þingsins gegn ofurvaldi framkvæmdarvaldsins, svo ég noti þau orð sem hv. þingmaður notaði sjálfur.

Hann fór jafnframt yfir það hver skoðun hæstv. fjármálaráðherra hefði verið á þessu máli árið 2007 og að þeir hefðu þá staðið hér saman og talað fyrir sjónarmiðum sem ættu fullkomlega rétt á sér enn þá í dag. Ég vil í ljósi þessa óska eftir því við frú forseta að ræða hv. þm. Atla Gíslasonar verði sett í prentun strax þannig að hv. þingmenn, bæði þeir sem eru í salnum og aðrir, geti kynnt sér hana strax. Ég held að það væri rétt að í það minnsta að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra fengju þessa ræðu til yfirlestrar, því að það er sitthvað (Forseti hringir.) í þessari ræðu sem væri gott fyrir þá að lesa.

(Forseti (ÁI): Forseti vill árétta að undir þessum dagskrárlið ber að ræða fundarstjórn forseta.)