139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég hafi hugmyndaflug til að svara þessari spurningu. Auðvitað eru möguleikarnir endalausir þegar það blasir við að hverfa frá því að hafa hámarksfjölda ráðuneyta, hverfa frá því að tilgreina ráðuneytin í löggjöfinni og opna síðan á möguleika á því að taka út einstaka málaflokka og búa til sérstök ráðuneyti utan um tiltekna málaflokka.

Ég held að hér sé verið að stíga miklu stærra skref en jafnvel var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. Ég hef margoft vakið á því athygli að árið 1969 höfðu menn fengið sig fullkeypta af þeirri lausung sem hafði ríkt í þessum efnum og þess vegna hurfu þeir frá þessu og vildu setja meiri formfestu í fyrirkomulagið. Það má vel vera að menn vilji skoða þetta en ég tel að í þessum efnum, eins og frumvarpið liggur fyrir og ég tala nú ekki um breytingartillögurnar, sé gengið allt of langt (Forseti hringir.) og hættan sé sú að það verði lausung í þessum mikilvæga málaflokki sem þarf á öllu öðru að halda.