139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki verður annað sagt en að við hv. þingmenn höfum fyrr í kvöld varað hæstv. forseta við þeirri hættu sem fylgir því að láta þingfund standa langt fram á nótt. Menn verða þreyttir og hálfdofnir eins og birtist í andsvari hv. þm. Róberts Marshalls. Ég var búinn að gera honum grein fyrir því, eins og hann mátti reyndar segja sér sjálfur, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins væru búnir að koma upp í ræður, sumir hverjir nokkrum sinnum, og ótal andsvör og gera grein fyrir afstöðu sinni. Samt þarf hann að biðja mig aftur um að útskýra fyrir sér afstöðu þessara þingmanna. Þetta hefur allt komið fram í umræðum og ég var reyndar búinn að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni í fyrra andsvari mínu. Þetta er, virðulegur forseti, hættan sem fylgir því að halda svona á skipulagi þingsins og láta menn vaka langt fram á nótt, svoleiðis að þeir verða dofnir og geta ekki með góðu móti tekið þátt í umræðum.