145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða um skaðleg efni í neysluvörum. Ég hef lagt fram þingmál þess efnis að umhverfisráðherra móti stefnu í þessum málaflokki rétt eins og Danir, Svíar og Norðmenn hafa gert. Málið er komið til nefndar en ekkert hefur gerst í því þar. Það á ekki að þurfa þingmál frá þingmanni til að ráðherra taki af skarið og geri eitthvað í þessum málum. Staðreyndin er sú að það er gríðarlegt magn af skaðlegum kemískum efnum í umferð sem notuð eru í alls kyns neysluvörur. Mikið af þessum efnum er manngert. Þetta gerðist eftir seinni heimsstyrjöldina. Þetta geta verið plastefni, ilmefni, þráavarnarefni, skordýraeitur, varnarefni ýmiss konar. Þetta eru efni sem eru notuð í snyrtivörur, efni sem er að finna í textíl, í fötum og þar fram eftir götunum.

Mér finnst við hafa verið ótrúlega sofandi í þessum málaflokki hér á Íslandi. Það er mikil umræða um þetta í öðrum löndum. Fyrir 15 árum í Danmörku átti ég vinkonu sem datt ekki í hug að nota ákveðna tegund af kremi á börnin sín af því að það innihélt paraben. Ég leyfi mér að fullyrða að á þeim tíma vissi örugglega enginn Íslendingur hvað paraben var. Við erum eiginlega enn á þeim stað. Mér finnst stjórnvöld ekki hafa staðið sig í stykkinu að setja þetta mál á dagskrá.

Ég vona að þessi þingsályktunartillaga sem ég flutti verði til þess, mig minnir að það hafi verið fólk úr öllum flokkum á henni eins og er í mörgum þessara neytendamála sem fara þvert á flokka, að sá umhverfisráðherra sem tekur við næst gangi í þetta mál. Það er mjög mikilvægt að upplýsa neytendur því að löggjöfin hefur ekki haldið í við þróunina. Löggjöfin hefur tekið mið af hagsmunum framleiðenda, ekki endilega umhverfisverndarsjónarmiðum eða sjónarmiðum neytenda. Við þurfum að vita að það eru efni þarna úti sem við eigum að varast. Við þurfum að vita hvernig við getum varast þessi efni, t.d. með því að kaupa svansmerktar vörur. Þetta eru upplýsingar sem þarf að koma á framfæri og ég mælist til þess að næsti umhverfisráðherra, kannski er einhver hv. þingmaður hér í salnum sem mun verða umhverfisráðherra í næstu ríkisstjórn, taki þetta mál upp og geri skurk í þessu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna