138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vék í lok ræðu sinnar að því að tiltekinn fjöldi sérfræðinga hefði komist að tiltekinni niðurstöðu og það réði afstöðu hennar í þingmannanefndinni. Þá spyr ég: Höfum við, hinir sem sitjum hérna á Alþingi og þurfum líka að taka afstöðu til þessarar spurningar, aðgang að þessu áliti sérfræðinganna? Getum við séð hvað þeir sögðu? Getum við einhvers staðar kynnt okkur rökstuðning þeirra fyrir niðurstöðu þeirra? Getur almenningur í landinu fengið að vita hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu?

Það nægir mér ekki að ónafngreindir sérfræðingar hafi með ótilgreindum hætti komist að einhverri niðurstöðu og að þess vegna eigi ég að greiða atkvæði eins og sérfræðingarnir segja. Ég vil sjá rökstuðninginn. Ég vil leggja mat á hann. Ég vil að aðrir geti líka lagt mat á þennan rökstuðning. Þannig eigum við að komast að niðurstöðu. Við komum ekki upp og förum í hausatalningu á ónafngreindum sérfræðingum og segjum: Fjórir af fimm eða fimm af sex — þessar tölur hafa reyndar verið á reiki í ummælum og ræðum ýmissa þingmanna, hv. þm. Atla Gíslasonar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og nú síðast hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Ég ætla ekki að halda því fram að þessir hv. þingmenn séu einhvern veginn að segja ósatt, ég ætla þeim það ekki, ég vil hins vegar vita hvað þessir sérfræðingar sögðu og hvernig þeir rökstuddu mál sitt. Ef álit þeirra á með einhverjum hætti að vera grundvöllur ákvörðunar okkar — því að það var það sem hv. þingmaður gerði í ræðu sinni og það er það sem fleiri hv. þingmenn, aðstandendur þessarar ákærutillögu, hafa gert, þeir skjóta einhvern veginn ábyrgðinni yfir á sérfræðingana, ótilgreinda (Forseti hringir.) og ónafngreinda sérfræðinga. Þeir eru að skjóta sér á bak við að sérfræðingarnir segi eitthvað, þess vegna taki þeir sína afstöðu. Þá spyr ég: Getum við hin kynnt okkur (Forseti hringir.) hvað sérfræðingarnir sögðu og (Forseti hringir.) hvernig þeir rökstyðja mál sitt?