139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög mikilvægt mál, þ.e. afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Nú eru þrjú ár frá því bankarnir féllu. Við höfum átt umræðu sem þessa í þingsal reglulega frá því ég tók sæti á þingi og hún hljóðar alltaf á sama veg: „Það er mikill vandi hér. Það er ekki verið að taka rétt á honum.“ Það er hálfgerður æsingur í umræðunni vegna þess að mönnum er mikið niðri fyrir. Öll þekkjum við fjölskyldur sem eru í miklum vanda.

Ég gæti haldið enn eina ræðuna um að ríkisstjórnin sé ekki að standa sig vel og að henni hafi ekki tekist að taka utan um þennan vanda, með mikilli reiði gæti ég staðið hér. Ég nenni því bara einfaldlega ekki lengur. Við höfum vissulega samþykkt úrræði. Við höfum öll tekið þátt í því í félagsmálanefnd að vinna að úrræðum. Þau hafa hins vegar reynst hægvirk og ekki til þess fallin að fækka þeim sem lenda í vanda. Ég held við eigum bara öll að viðurkenna það. Okkur hefur ekki tekist að ná utan um vandann. Við verðum hins vegar að líta á verkefnið eins og það liggur fyrir í dag og reyna að finna út úr því hvað er til ráða.

Vissulega er það ágætt að til standi að efla leigumarkað og breyta vaxtabótakerfinu og húsaleigubótakerfinu, en er það það sem tekur á vandanum eins og hann liggur fyrir í dag? Eru það ekki frekar framtíðarlausnir? Verðum við ekki að ræða um hvort verið sé að gera nóg í dag, eins og staðan er, eða ekki?

Ég tel og hef sagt það áður í þessum ræðustól að bankarnir hafi ekki gert nóg, þeir hafi ekki komið nægjanlega til móts við heimilin. Ég hef sagt það áður að stjórnvöld ættu að leggja enn meiri pressu, beita sér fyrir því að bankarnir komi í enn ríkari mæli til móts við skuldsett heimili. Það hefði átt að grípa til þess fyrr og fylgja því fastar eftir. Vandinn við verklagið frá upphafi var að upplýsingar voru ekki fyrir hendi. Stjórnvöld voru ekki með fullnægjandi upplýsingar um hver vandinn var. Og þar liggur hundurinn grafinn að mínu mati. Það var ekki hægt að fylgja þeirri kröfu fastar eftir vegna þess að okkur skorti upplýsingar.

Upplýsingar í þessu máli sem öllum öðrum eru lykillinn að því að við náum árangri. (Forseti hringir.) Því miður hefur okkur ekki gefist tóm til að fara í að afla þeirra.

Hins vegar ítreka ég enn og aftur, það er ekki of seint fyrir okkur, fulltrúa allra flokka, að setjast niður (Forseti hringir.) og reyna í sameiningu að finna lausn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)