139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa ræðu. Þetta var tímamótaræða sem hér var flutt af stjórnarandstöðuþingmanni og hef ég nú ekki oft séð ástæðu til að þakka í þessum ræðustól fyrir ræður sem hafa verið fluttar þar af stjórnarandstöðunni á þeim 40 tímum sem hún hefur flutt ræður um þetta frumvarp.

Hv. þingmaður talaði hér af einlægni með sinni sannfæringu og stefnu síns flokks, (GBS: Það er ekki rétt!) sem svo vill til að fer saman við frumvarp sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt fram. Mér fannst hv. þingmaður lýsa í rauninni í hnotskurn þeim vanda sem löggjafarsamkunda þjóðarinnar á við að glíma, að það er aldrei hægt að ræða málefnalega um mál og takast á með rökum og af hreinskiptni og reyna að finna lausnir, heldur eru mál alltaf sett í uppnám þannig að erfitt er að leysa þau. Það er þetta sem Alþingi þarfnast, þ.e. málefnalegrar umræðu.

Hv. þingmaður lýsti tillögum stjórnarráðsnefndar síns flokks sem voru samþykktar á flokksþingum Framsóknarflokksins 2007 og 2009. Hún sagði að þetta væru nánast sömu hugmyndir og væru í því frumvarpi sem við ræðum hér. Þetta var athyglisvert. Því veldur það auðvitað undrun að þingmenn Framsóknarflokksins, margir hverjir eða kannski flestir, hafa talað á móti þessu frumvarpi. Ég vil þakka fyrir þá breytingartillögu sem hún og hv. þm. Eygló Harðardóttir standa að ásamt tveimur öðrum þingmönnum. Svona eiga vinnubrögðin að vera. Hér er sett fram tillaga til lausnar á málum (Forseti hringir.) til málamiðlunar. Ég tek undir þá tillögu og tel að hún sé sú tillaga sem við eigum að (Forseti hringir.) vinna að til lausnar þessa máls.