139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[19:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við hefjum hér enn á ný umræðu um frumvarp um Stjórnarráð Íslands, frumvarp sem við höfum rætt hér og eigum margt eftir órætt. Þetta setur öll þingstörfin úr skorðum eins og kunnugt er. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvernig á því standi að nú þegar þingstörfin eru í því uppnámi sem orðið er, af hverju formenn þingflokka séu ekki kallaðir til til að reyna að setjast yfir þetta vandamál og komast að samkomulagi. Er það ekki örugglega þannig, frú forseti, að það er hæstv. forseti Alþingis, forseti Alþingis sem er forseti okkar þingmanna allra og við tókum þátt í að kjósa í það embætti þó að það sé ekki sá virðulegi forseti sem situr nú í forsetastól, er það ekki svo að stjórn þingsins sé örugglega í höndum forseta þingsins? Ég vil benda hæstv. forseta á að taka til sín stjórnina (Forseti hringir.) á þinginu og kalla þingflokksformenn saman og athuga hvort við getum hoggið á þennan hnút. (Forseti hringir.)