139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ástandið á þinginu er eins og það er hvenær sé í raun ástæða fyrir hæstv. forseta að funda með formönnum þingflokka ef ekki núna. Ekki hefur verið fundað með formönnum þingflokka síðan á mánudaginn. Það kemur mér verulega á óvart. Ég kem hins vegar hér upp til að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar. Mér þótti það nokkuð merkilegt þegar hv. þingmaður benti á það að væri mjög æskilegt að formenn þingflokka og forustumenn flokka mundu setjast niður og reyna að leysa málið. Ég held að það væri snjallræði fyrir hæstv. forseta að gefa málinu ákveðinn tíma, halda áfram dagskránni og taka einhver önnur mál á dagskrá. Ég tel að það sé rétt mat hjá hv. þm. Helga Hjörvar að það sé kannski ekki svo langt í að menn nái samkomulagi um málið. En auðvitað þarf hæstv. forseti að tukta til forustumenn flokkanna til að gera þeim grein fyrir því að það er að sjálfsögðu hæstv. forseti sem stjórnar þinginu og að við þurfum að halda áfram með dagskrána. Það held ég að væri mjög gott ráð.