139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að ég talaði síðast úr þessum ræðustól en það verður að segjast eins og er að það var allt að því hlýlegt að verða vitni að því í dag að fátt hefur breyst á þeim tíma sem ég hef verið fjarri. Enn er verið að ræða um álverið í Helguvík og hversu mjög það hefur dregist og enn er verið að ræða hér inn í nóttina mikilvæg og merkileg mál sem skipta heilmiklu þegar til lengri tíma er litið. Það má auðvitað margt segja um þau vinnubrögð sem eru fólgin í því að standa þannig að málum af hálfu ríkisstjórnar að við þurfum að ræða mál með þessum hætti eins og ég hef orðið vitni að hér í dag um þetta frumvarp um Stjórnarráð Íslands.

Ég mun í ræðu minni ræða almennt um frumvarpið. Ég geymi mér það þar til síðar að fara í sérstakar greinar, en ég vil byrja á því að segja að ég hef vissa samúð með þessu frumvarpi. Ég játa að ég hafði leitt hugann að mörgu í því fyrir margt löngu og hvort það væri ástæða til að gera svipaðar breytingar og þær sem rætt er um í frumvarpinu. Þegar ég starfaði sem aðstoðarmaður forsætisráðherra gerði ég mér ferð til Danmerkur til að skoða sérstaklega þetta fyrirkomulag og velta því fyrir mér og átti þar fund með dönskum embættismönnum og stjórnmálamönnum til að reyna að átta mig á því fyrirkomulagi sem þar er við lýði. Kosturinn við það fyrirkomulag sem ég skoðaði þar var sá að það var aukinn möguleiki á því að binda saman stjórnarstefnu og skipulag Stjórnarráðsins. Það er hægt að finna marga góða kosti við þá hugsun. Vandinn er nefnilega oft sá að þegar búið er að skipa ráðherra yfir einstaka málaflokka getur verið ansi snúið og erfitt að færa til verkefni vegna þess að mönnum verða verkefnin kær; má ég leyfa mér að segja, herra forseti, völdin kær. Því getur einmitt orðið erfitt fyrir forsætisráðherra eða aðra að breyta verkefnum á milli ráðherra, leggja niður ráðuneyti eða hvað það nú er.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu og gerði það fyrir margt löngu, áður en þessi umræða hér hófst, að það væri veruleg hætta hjá okkur að sú þróun sem leiddi til þess að breytingar voru gerðar á þessum málum hjá okkur með lögum nr. 73/1969 mundi einfaldlega endurtaka sig, það yrði lausung í þessu fyrirkomulagi okkar og það væri nauðsynlegt að hafa töluverða formfestu um það hvernig verkefnum Stjórnarráðsins væri skipað og það væri eðlilegt að Alþingi stæði þar að baki.

Ef við erum að leita að lausn í þessu máli og um hvað væri hægt að ná sátt bendi ég á að í athugasemdum um frumvarpið er á bls. 17 fjallað um það fyrirkomulag sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Ef ég má grípa hér niður, með leyfi forseta:

„Í Finnlandi eru stjórnarmálefni hins vegar jafnan flutt á milli ráðuneyta með lögum enda á sú framkvæmd sér beina stoð í finnsku stjórnarskránni og eru frumvörp um slíkt jafnan á meðal fyrstu þingmála hverrar ríkisstjórnar.“

Þetta segir mér að það er hægt að ná fram því sem ég tel að sé hugsunin á bak við til dæmis danska fyrirkomulagið, að hnýta ágætlega saman þessa leið, að það sé sveigjanleiki og hægt að láta verkaskiptingu milli ráðuneytanna endurspegla stjórnarstefnuna. Það kallar á að þegar ríkisstjórn tekur við völdum séu meðal fyrstu málanna sem hún leggur fram breytingar á störfum Stjórnarráðsins en það sé þingsins að ákveða þessa hluti, það verði ekki gert án þess að samþykki þingsins liggi fyrir.

Ég held að það væri vel að við skoðuðum betur þá aðferð sem Finnarnir hafa í þessum málum. Hún gæti hentað okkur ágætlega, hún er millibilsleið í þessu máli. Hún er kannski frekari breyting á hefðum og hugsun en ekki endilega formbreyting frá því sem nú er, þ.e. áfram ætti þingið að stýra þessum málum en ríkisstjórnin gerði það að venju sinni þegar málefnasamningur lægi fyrir að um leið yrði þessum verkum skipað og lagt fram frumvarp þar að lútandi.

Þannig er í athugasemdum um frumvarpið á bls. 7 bent á að þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu grundvallist á núgildandi stjórnarskrá. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa eftirfarandi:

„Efnisákvæði frumvarpsins ráðast í veigamestu atriðunum, rétt eins og ákvæði núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands, af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, enda grundvallast staða Stjórnarráðsins, þ.e. ráðherra og ráðuneyta þeirra, sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins í landinu á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Við vinnslu frumvarpsins var þess gætt í hvívetna að ákvæði þess væru í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og óskráðar stjórnskipunarreglur.“

Þetta gefur augaleið, svona verður auðvitað á að halda.

Töluverð umræða hefur verið um það að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og er skemmst að minnast þess að sett var á laggirnar stjórnlagaráð, ætla ég ekki að eyða tíma mínum í að ræða hvernig til þess var stofnað, en það skilaði frá sér tillögum um breytingar á stjórnarskránni. Margir þingmenn, einkum stjórnarliðar, hafa mér sýnst á opinberum vettvangi lýsa yfir heilmikilli ánægju með bæði þá vinnu og þær hugmyndir sem þar hafa komið fram. Það er því áhugavert, herra forseti, að bera saman þær hugmyndir sem koma frá stjórnlagaráðinu um þau málefni sem hér er verið að ræða, m.a. um stöðu ráðherra, verkefni þeirra, stöðu ríkisstjórnar og aðra þá þætti, við það frumvarp sem hér er um að ræða. Hér er frumvarp hæstv. forsætisráðherra sem leggur þar með línurnar og þær áherslur og það sem hæstv. forsætisráðherra telur skynsamlegast í málinu.

Ég vil byrja á því að velta hér upp að í 87. gr. draganna að nýrri stjórnarskrá stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.“

Með öðrum orðum er talað um ríkisstjórnina sem fjölskipað stjórnvald, þ.e. að ráðherrarnir komi saman til ráðherrafunda og séu samábyrgir um þá ákvarðanatöku sem þar fer fram. Reyndar er um það fjallað í 95. gr., með leyfi herra forseta:

„Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum.“

Það er rétt að bera þær áherslur sem koma fram hjá stjórnlagaráðinu saman við þær niðurstöður sem eru í því frumvarpi sem hér er um að ræða. Hér er allt önnur áhersla, hér er ekki lagt upp með að ríkisstjórnin skuli vera fjölskipað stjórnvald, að það skuli vera sameiginleg ábyrgð ráðherra á þessum málaflokkum. Með öðrum orðum eru flytjendur og stuðningsmenn þessarar tillögu þá ósammála þeirri áherslu sem kemur fram hjá stjórnlagaráðinu. Ég hef skoðað ágætlega þessar tillögur, tel margt þar mjög athugunarvert en tel að ýmislegt í þeim tillögum verði erfitt að láta ganga saman. Það er rétt að vekja athygli á því að með því að leggja fram það frumvarp sem hér liggur fyrir er í raun verið að segja að hugmyndir stjórnlagaráðs njóti ekki stuðnings þeirra sem leggja fram þetta mál hér.

Það er rétt að geta þess og það skiptir máli í þessum samanburði að í 90. gr. í tillögum um nýja stjórnarskrá er sérstaklega sagt, með leyfi herra forseta:

„Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.“

Þetta er í ágætissamhljómi við þær tillögur sem koma hér fram frá hæstv. forsætisráðherra. Reyndar vekur það athygli mína að í tillögunum um nýja stjórnarskrá skuli vera kveðið á um nákvæmlega tíu ráðuneyti, væntanlega er það bara tilviljun en fjöldinn kallast á við tillögurnar frá forsætisráðherra. Ég gef mér að tillögurnar frá stjórnlagaráðinu hafi verið komnar fram fyrr og að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið mið af þeim.

Það er samt sem áður augljóst að það er ekki tekið mið af öllum tillögum stjórnlagaráðs vegna þess að ef þær eru áfram skoðaðar má í 90. gr. sjá sérstaklega kveðið á um það að forsætisráðherra skipi aðra ráðherra og veiti þeim lausn. Þetta er ólíkt því sem lagt er upp með í því frumvarpi sem hér er um ræða því að í 3. gr. segir, með leyfi herra forseta:

„Forseti Íslands veitir forsætisráðherra og ráðuneyti hans sem og einstökum ráðherrum lausn frá embætti samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Ég vildi gera þetta að umræðuefni enn og aftur til að árétta og benda á að flutningsmenn þessa frumvarps eru greinilega í mjög veigamiklum atriðum ósammála þeim tillögum sem koma frá stjórnlagaráði hvað þessa þætti varða þó að einnig sé hægt að benda á samstofna og sameiginleg atriði.

Nú skulum við hugsa okkur að það frumvarp sem hér er um að ræða verði samþykkt og jafnframt skulum við velta fyrir okkur hvað gerðist ef farin yrði sú leið sem ýmsir hafa mælt fyrir, að þau drög að nýrri stjórnarskrá sem liggja fyrir af hálfu stjórnlagaráðsins yrðu send til þjóðarinnar og Alþingi samþykkti þau óbreytt. Þá sjá menn hvaða staða er komin upp. Ég mæli ekki með þeirri málsmeðferð en ég tel í ljósi þessarar umræðu að það hefði verið skynsamlegt að við hefðum fyrst gengið með vönduðum og ábyggilegum hætti frá þeim hugmyndum sem við viljum koma fram á Alþingi um breytingar á stjórnarskrá og á þeim grunni ynnum við síðan breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég held að það væri eðlilegri og skynsamlegri röð verka.

Vil ég þá, herra forseti, víkja aðeins að stöðu þingsins. Ég tel og er sammála mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað að í þessu frumvarpi felist ótvírætt valdaafsal þingsins til framkvæmdarvaldsins. Ég hef í gegnum tíðina haft ákveðna samúð með þeirri hugsun og það er vel hægt að færa fyrir henni rök, rétt eins og við sjáum til dæmis hvernig Danir standa að sínum málum, að menn hafi annað fyrirkomulag en við. Ég tel enn og aftur að reynsla okkar af því fyrirkomulagi hafi einmitt sannað að við þurfum á meiri festu að halda.

Í stjórnmálum og stjórnmálalífi flestra nágrannaþjóða okkar, sérstaklega Skandinavanna auðvitað, er rík hefð fyrir minnihlutastjórnum og hreint út sagt öðruvísi stjórnmálamenningu og stjórnmálahefðum sem gera það að verkum að mínu mati að það er auðveldara að vera með þá leið, þá aðferð og þá aðferðafræði sem er beitt í Danmörku.

Það er ekki bara að hér sé um að ræða ákveðið valdaframsal frá þinginu til framkvæmdarvaldsins og hættu á því að það verði lausung og losarabragur á þessum málum, ég tel líka mjög mikilvægt, herra forseti, að við hugum vel að því að í umræðunni um stöðu þings og framkvæmdarvalds er því oft ruglað saman þegar sagt er að framkvæmdarvaldið kúgi löggjafarvaldið og gangi yfir það. Í raun erum við að segja að meiri hlutinn á þinginu gangi yfir minni hlutann. Það er þingræði á Íslandi og þegar okkur finnst verið að valta yfir þingið er það í raun og veru vilji meiri hlutans á þinginu að þannig sé farið með mál. Það er nefnilega Alþingi sem hefur lokaorðið um allar fjárveitingar til framkvæmdarvaldsins. Alþingi ákveður hversu mikla fjármuni það sjálft hefur og ef Alþingi kvartar yfir því að það skorti fjármuni snýr sú umræða og umkvörtun ekki að framkvæmdarvaldinu, heldur Alþingi sjálfu.

Með því að þetta frumvarp verði að lögum gerist til dæmis eitt. Þá fjölgar pólitískum aðstoðarmönnum ráðherranna umtalsvert. Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað styrkingu framkvæmdarvaldsins þannig að pólitísk staða framkvæmdarvaldsins styrkist og þá um leið pólitísk staða meiri hlutans á Alþingi. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Ég var hér að ræða tillögur stjórnlagaráðs og vek athygli á að þar er gert ráð fyrir því að ráðherrar víki af þingi og að ef ráðherrarnir eru þingmenn komi varamenn þeirra í staðinn til þings. Þetta mun valda því, og það er enginn vafi í mínum huga hvað það varðar, að staða meiri hlutans styrkist enn frekar vegna þess að þar með fjölgar þeim stjórnmálamönnum sem styðja meiri hlutann og eru í fullri vinnu í stjórnmálabaráttunni. Það að ráðherrar hafi ekki fullt málfrelsi í þingsalnum, sitji ekki hér sem þingmenn, er ekki það sem skiptir höfuðmáli. Það er styrkur meiri hlutans, fjöldi þeirra að baki honum, bæði hvað varðar þingstyrkinn sjálfan og eins líka þann pólitíska styrk sem felst í því að hafa sem flesta starfandi og virka stjórnmálamenn í stjórnmálaátökunum.

Síðan er hitt að það er alveg augljóst að þessi fjölgun aðstoðarmanna mun auðvitað kosta sitt, eins og hér hefur verið bent á. Það er svolítið merkilegt að horfa á hversu auðvelt það virðist vera að leggja til aukinn kostnað vegna þess að það þurfi að fjölga aðstoðarmönnum eða bæta við sérfræðiaðstoð fyrir framkvæmdarvaldið og bera það til dæmis saman við það þegar rætt var á Alþingi um að fjölga aðstoðarmönnum eða búa til aðstoð fyrir alþingismenn. Þá var hugmyndin sú að aðstoðarmenn kæmu sérstaklega fyrir landsbyggðarþingmennina sem mundu deila með sér aðstoðarmönnum vegna þess að alþingismenn úti á landsbyggðinni væru í stórum kjördæmum sem væri erfitt að sinna og þá þyrftu þeir til þess aðstoð. Síðan var það dregið til baka vegna kostnaðar. Ég held að áður en farið verður í að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra megi alveg ræða hvort ekki sé frekar ráð að nota þessa peninga til að styrkja þingið eins og lagt var upp með. Ég geld varhuga við því, herra forseti, að það sé verið að færa enn og aftur völd frá þingi með þessum hætti og á sama tíma styrkja framkvæmdarvaldið pólitískt með því að fjölga aðstoðarmönnunum, en gera ekkert til að tryggja að staða minni hlutans á þinginu styrkist.

Ég vil í þessari umræðu líka taka það fram þó að ég hafi ekki lagt mig nægilega vel eftir því, ég hef einfaldlega ekki haft tíma til þess að rannsaka það alveg ofan í kjölinn, að ég held að þær breytingar sem hér standa fyrir dyrum á nefndakerfi þingsins muni ekki breyta neinu í valdahlutföllunum á þinginu þegar upp verður staðið. Þær munu ekki breyta því að meiri hlutinn nær sínu fram þegar hann vill gera það, það er svo sem hið eðlilega þingræði, en ég held að það verði engin merkjanleg styrking á stöðu stjórnarandstöðunnar. Það er nokkuð sem ég vil eiga betri kost á að skoða í framhaldinu, herra forseti, en ég nefni það hér sem hluta af þessari umræðu um stöðu minni hlutans gagnvart meiri hlutanum á þinginu.

Síðan, herra forseti, án þess að ég ætli að fara ofan í einstakar greinar með einhverjum afgerandi hætti eru auðvitað nokkur atriði hérna sem ég vildi gjarnan velta upp.

Það er til umhugsunar hvers vegna í upphafi hafi verið lagt til að festa fjölda ráðuneytanna við tíu. Í áliti meiri hlutans hefur verið lagt til að breyta því og afnema þetta hámark. Ég er sammála þeirri niðurstöðu vegna þess að ef við á annað borð erum þeirrar skoðunar að forsætisráðherra eigi að fara með þetta vald og það eigi að vera möguleiki á því að færa til verkefni, fjölga og fækka ráðuneytum, tel ég enga ástæðu til að segja um leið að við treystum viðkomandi forsætisráðherra þó ekki meira en svo að þau megi aldrei vera fleiri en tíu. Við teljum með öðrum orðum líklegt að það verði vilji til þess að fjölga umfram tíu og það verði gert í einhvers konar bríaríi og án þess að hafa fyrir því sterk stjórnskipuleg rök, þess vegna þurfi að setja slíkt hámark. Til dæmis er í dönsku stjórnskipuninni ekkert slíkt hámark enda stenst það ekki og er í raun í þversögn við ákvæði 15. gr. stjórnarskrárinnar hvað þessa hluti varðar. Ég styð þá breytingu, ég held að hún sé skynsamleg að því gefnu að menn fari þessa leið.

Síðan er annað sem mér þykir mjög áhugavert að skuli hafa gengið þannig fram, að ein af þeim kröfum sem komu fram í meðförum nefndarinnar hafi verið sú að það verði ákveðið að hljóðrita fundi ríkisstjórnarinnar. Ég held, herra forseti, að þetta sé ekki mjög skynsamlegt. Rökin fyrir þessu eru væntanlega þau að sagnfræðingar, stjórnmálafræðingar og almenningur allur geti að 30 árum liðnum kynnt sér nákvæmlega hvað fór fram á bak við hinar luktu dyr á ríkisstjórnarfundum í forsætisráðuneytinu. En ég óttast að ef þetta gengur fram muni umræður og aðdragandi ákvarðanatöku fara fram annars staðar. Það sem mun gerast í ríkisstjórnarherberginu er að ráðherrarnir munu lesa upp stílana sína, undirbúnar yfirlýsingar frá aðstoðarmönnum sínum, en ræði sín á milli annars staðar fyrir fundina um það síðan að hvaða niðurstöðu menn komist. Ég óttast að menn verði sér mjög meðvitaðir um að það er verið að hljóðrita. Og ákvæðinu um að þetta verði ekki opnað fyrr en eftir 30 ár má breyta mjög auðveldlega með lögum. Þetta er ekki ákvæði í stjórnarskrá heldur í lögum og menn mega þá búast við því, eða það er möguleiki á því, að sú staða komi upp eftir kosningar þegar það kemur ríkisstjórn sem er mynduð gegn og þvert á þá ríkisstjórn sem er í landinu fyrir að hún taki ákvörðun um það vegna þjóðarheilla, mikilvægra hagsmuna o.s.frv. að opna bara strax fyrir birtingu á þeim umræðum sem höfðu farið fram í þeirri væntanlega þá vondu ríkisstjórn sem var fyrir kosningar. Um þetta getum við ekkert búið tryggilega nema þá að setja þetta ákvæði í stjórnarskrá þannig að það sé ekki hægt að breyta árafjöldanum nema í gegnum stjórnarskrána.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég óttast að það geti orðið of mikil freisting einhvern daginn fyrir nýjan þingmeirihluta að grípa til slíkra ráða og það muni enn ýta undir það að umræður á ríkisstjórnarfundum endurspegli ekki ákvarðanatökuna, hún hafi í raun farið fram annars staðar.

Það þýðir líka að það verður minni festa í stjórnarathöfnum öllum ef þessi verður raunin. Ef ákvarðanatakan og umræðan fer fram utan ríkisstjórnarherbergisins vegna þess að menn hafa áhyggjur af slíkum hljóðritunum dregur það úr allri stjórnarfestu. Ég held þess vegna að það sé ástæða fyrir okkur til að skoða þetta atriði. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er niðurstaðan úr kaupum á milli stjórnarmeirihlutans og einstakra annarra þingmanna í þinginu og er einhvers konar samkomulag þar á milli, en það samkomulag bindur ekki þingið, bindur ekki almenna þingmenn. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að við felldum þetta ákvæði út, að það verði ekki samþykkt í atkvæðagreiðslu þegar til þess kemur.

Herra forseti. Ég held að það megi líka sjá af þeim umræðum sem hér hafa orðið að það er vissulega nauðsynlegt að íhuga vel breytingar á Stjórnarráðinu. Það er nokkuð sem við eigum að vera með í stanslausri skoðun en ég er þess jafnfullviss að það stendur ekki síður upp á okkur alþingismenn að skoða vel okkar gang og hvernig við högum okkar störfum hér. Allt leikur þetta saman.

Mér þykir málatilbúnaðurinn núna á þessum svokallaða stubbi með eindæmum vondur. Það er vont fyrir þingið og það er vont fyrir þjóðina að við skulum núna, þegar allir þeir efnahagsörðugleikar sem við blasa eru að magnast og verða okkur erfiðari og þyngri með hverjum deginum sem líður, standa í þeirri stöðu hér á Alþingi að skipulag verklagsins sé þannig að við sitjum föst, að við náum ekki samkomulagi um þessa hluti, það sé ekki hægt að leysa þá.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar tel ég að það eigi að vera hægt að ná ágætisniðurstöðu með því meðal annars að skoða finnsku leiðina sem ég kalla svo, sem ég gat um í upphafi ræðu minnar. Það kallar bara á að við breytum svolítið um stjórnmálamenningu og aðferðir, það kallar ekki á stórar lagabreytingar. Það þýðir að ný ríkisstjórn sem kemur til valda eftir kosningar leggur fram frumvarp um þær breytingar sem hún vill gera á verkefnum Stjórnarráðsins. Ég tel að þar með náum við þeim markmiðum sem eru sett fram í þessu frumvarpi og er verið að reyna að leita eftir án þess að taka þá áhættu að sá losarabragur og sú lausung sem leiddi til þess að lögunum var breytt árið 1969 að frumkvæði dr. Bjarna Benediktssonar endurtaki sig.

Með öðrum orðum er til ágætislausn á þessu máli. Ég held að það hvíli svo mjög á Alþingi Íslendinga að leysa þau fjölmörgu vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna að það væri einnar messu virði að sjá hvort forustumenn stjórnmálaflokkanna gætu ekki sest niður og rætt sig að einhverri slíkri lausn. Ég held að það væri mjög skynsamlegt.

Þegar við horfum til baka og veltum fyrir okkur þegar ákvörðun var tekin um þá breytingu á þingsköpunum þegar stubburinn svokallaði var tekinn upp, þ.e. þessi þingbiti hérna í septembermánuði, sjáum við að við hefðum þurft að hugsa aðeins betur hvernig nákvæmlega við mundum framkvæma hann. Eitt er hvaða ramma við setjum, hvaða kerfi og hvaða lög, annað er síðan hvernig við fylgjum því eftir. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að hafa það þannig hvað þetta kerfi varðar og þetta fyrirkomulag að það hefði þurft að liggja fyrir við þinghlé að vori samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um nákvæmlega hvaða mál yrðu tekin fyrir á þessu hálfs mánaðar tímabili í september þannig að búið væri að ganga frá slíku samkomulagi og þingið gæti gengið til þeirra verka og klárað þau.

Það er enginn bragur á því að við skulum vera með fjölda mála, mörg þeirra mjög mikilvæg, og við náum ekki að láta þau ganga fram vegna þess að við erum í þessari deilu.

Sama gildir um það fyrirkomulag sem við setjum um Stjórnarráðið. Eitt er það fyrirkomulag sem við setjum upp, annað hvernig við framkvæmum það, hvaða hugsun liggur að baki og hvaða hefðir síðan láta kerfið virka.

Þess vegna held ég enn á ný að ef það næðist um það góð sátt á milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi að við færum þá leið sem Finnarnir hafa lagt upp með, að strax í upphafi nýs tíma hjá ríkisstjórn liggi fyrir hugmyndir ríkisstjórnarinnar um verkaskiptinguna, gætum við náð þessari samstöðu. Þá næðum við fram því sem hæstv. forsætisráðherra kallar eftir sem ég get enn á ný sagt að margt er vel athugunar virði. Með sumu hef ég ágæta samúð. Ég tel þó að það sé um leið svo mikilvægt að varðveita þá festu sem nauðsynleg er, að við missum ekki stjórn á þessu eins og gerðist hér. Ef okkur tekst raunverulega að sameina þetta tvennt, festuna og um leið þann sveigjanleika sem fylgir þessu kerfi, er auðvitað árangri náð. Um þetta ættum við að geta náð ágætri sátt.

Hitt er síðan umhugsunar virði í þingstörfunum að forgangur mála skiptir miklu máli, hvaða mál við tökum fyrir og í hvaða röð. Ég held að það dyljist engum og ég held að enginn alþingismaður hafi það sem einhverja einkaskoðun eða hafi uppgötvað einhvern stóran sannleika í því að hin stóra og ríka krafa þjóðarinnar á hv. Alþingi er að við röðum þannig málum og göngum þannig frá þeim að það sem skiptir mestu máli um þessar mundir nái að ganga hratt og örugglega fram. Núna eru þannig tímar að það er þörf, frú forseti, á betri sátt.

Ég ætla að leyfa mér að segja að þegar ég kom til þings í dag varð mér nokkuð brugðið við að fylgjast með þeim átökum og þeirri hörku sem ég varð vitni að í þingsalnum. Ég held að þetta sé alvarlegt mál. Ég held að það sé vont ef stjórnmálin á Íslandi þróast í þá átt að menn geti varla talað saman. Það sem ég fylgdist með í þingsalnum í dag voru ekki samræður, ekki rökræður, heldur eitthvað allt annað.

Ég get ekki tekið undir það sem ég heyri stundum sagt, að virðing Alþingis sé svo lítil að það sé varla upp á hana lappandi. Það er langt því frá. Ég tel að besta leiðin til að þjóðin sé sátt við sitt Alþingi sé sú að við náum saman um þá þætti sem hægt er að ná saman um og deilum síðan, frú forseti, af virðingu um það sem við erum ósammála um.

Þess vegna ítreka ég: Hví ekki að skoða þá leið sem ég hef lagt hér áherslu á? Hví ekki að skoða þá leið sem Finnarnir hafa farið? Hví ekki að velta því hér upp að ná víðtækri pólitískri sátt um eitthvað slíkt? Ég held að sú krafa sé uppi.

Síðan er hitt líka að þegar ég horfi núna á þá umræðu sem verið hefur hér þennan dag sem ég hef tekið þátt í þingstörfunum, þegar fyrir liggur að nú hafa til dæmis orðið þær breytingar í efnahagsmálunum okkar að við erum hætt í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hefði ég haldið að okkar tími hér þessa dagana ætti að fara í að ræða nákvæmlega hvernig við ætlum að leggja upp nýja efnahagsáætlun fyrir Ísland. Mér finnst, frú forseti, sem við fljúgum eiginlega blindflug án blindflugstækja, við séum að keyra áfram efnahagsstjórnina án þess að vita hvert við ætlum, þaðan af síður hvernig við ætlum að komast þangað sem þó kannski einhverjir telji sig hafa hugmynd um. Sú krafa hlýtur að vera á okkur að við náum einhverri sæmilegri lendingu í svona máli, ýtum því frá, og ef ekki er hægt að ná lendingu í það sætti menn sig við að ekki sé sátt um það. Það liggur ekki nein reiðinnar ósköp á þessu máli. Ekkert í þessu máli kallar á að við klárum það einn, tveir og þrír. Það eru fjöldamörg önnur mál, frú forseti, sem skiptir verulega miklu máli að við klárum.

Ef það er nú alvara í þeirri hugsun, frú forseti, að við ætlum að gera tilraun til að breyta stjórnarskránni, hví þá ekki að fara þá leið að klára þá vinnu og á grundvelli þeirrar stjórnarskrár, þegar liggur fyrir hvort við ætlum til dæmis að hafa ríkisstjórnina fjölskipað stjórnvald eða ekki, þegar liggur fyrir hvernig við viljum haga þeim málum, að taka þá til við að smíða endanlegt frumvarp og samþykkja lög um Stjórnarráð Íslands. Ég held að það væri miklu betri bragur á því. Það þýðir að ríkisstjórnin þyrfti að gefa eftir í þessu máli hvað varðar tímann, en hún þarf ekki að líta svo á að hún sé að gefa eftir efnislega. Hún þarf ekki að líta svo á vegna þess að það er raunverulega bara verið að fresta ákvarðanatöku í máli sem er í lagi að fresta. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem er tímabundið. Enn og aftur, það hangir líka mjög saman við breytingar á stjórnarskrá.

Það er þess vegna þetta tvennt sem ég vildi, frú forseti, leggja áherslu á, annars vegar þetta með að það eru fordæmi annars staðar á Norðurlöndum sem við getum skoðað sem ná þeirri niðurstöðu sem við erum að leita eftir og tíminn núna er ekki réttur til að deila um þetta mál. Það er hægt að setja það til hliðar.

Við eigum eftir, frú forseti, á þessum fáu þingdögum sem eftir eru að leysa til dæmis umræðuna um gjaldeyrishöftin sem er sennilega eitthvert almikilvægasta málið sem nú liggur fyrir þinginu, alveg gríðarlega brýnt að okkur takist að ná skynsamlegri lendingu í því máli. Það mun taka í, frú forseti. Það eru skiptar skoðanir um það mál og þar er svo sannarlega tímasetning sem við verðum að standa við. Þar höfum við ekki neinn möguleika.

Ég held að ábyrgir þingmenn og ábyrgir ráðherrar hljóti að geta fallist á að það sé hægt að setja þetta mál til hliðar með þeim hætti sem ég hef lagt hér upp með.

Þetta eru helstu atriðin, frú forseti, sem ég vildi segja í þessari fyrstu ræðu minni um þetta mál. Ég á eftir að fara nokkuð dýpra ofan í einstakar greinar frumvarpsins. Ef við tækjum þá ákvörðun að geyma frumvarpið í einhvern tíma yrði enginn skaði skeður.