139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst óska 3. þm. Reykjavíkur norður til hamingju með að hafa haldið tvær ræður í fyrstu umferð, 40 mínútur hvora, og þannig talað í 80 mínútur og lagt það til mála að greiða ætti fyrir þingstörfum og koma á þeirri ábyrgð í þingsalnum sem hann óskaði svo sárlega eftir.

Ég vil svo fagna því að auki, forseti, að hér kemur maður sem hefur farið í sérstaka rannsóknarferð til Norðurlanda, annarra norrænna ríkja, Danmerkur, að kynna sér hvernig þessum málum er háttað þar. Mér finnst nokkuð rýr sá árangur af för hans að það sé á móti hinu danska, sænska og norska fyrirkomulagi sem lagt er til með 2. gr., að ráðherrum hætti til að vera þaulsetnir í stólum sínum, ef ég hef skilið þingmanninn rétt. Ég hef haft á tilfinningunni að sú hneigð ráðherra sé við lýði burt séð frá því hvaða kerfi er haft á skipan stjórnarráðs í viðkomandi löndum. Ef hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vildi vera hljóður bið ég hv. þingmann að skýra þetta betur eða segja okkur með hvaða öðrum hætti hann telur að danska, sænska og norska kerfið sé forkastanlegt og ekki hafandi á Íslandi.