139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum staðið hér í ræðustól í tugi klukkutíma að verða og talað um þetta mál. Við höfum ítrekað fengið að heyra, við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu, að verið sé að endurtaka hlutina hvað eftir annað, umræðan sé staglkennd og annað slíkt.

Síðasta ræða, ræða hv. þm. Atla Gíslasonar, brá nýjum svip á málið. Því hefur verið haldið fram að frumvarpið byggi á þeirri miklu vinnu sem rannsóknarnefnd Alþingis vann en hv. þingmaður hefur sýnt mjög rækilega fram á að það er ekki rétt og fyrir það ber að þakka honum. Jafnframt ber að benda stjórnarliðum á að það er rangt hjá þeim, sem þeir hafa stöðugt haldið fram, að hér sé staglkennd umræða, innantóm, (Forseti hringir.) vegna þess að hér eru að koma fram nýir hlutir þrátt fyrir að klukkan sé að verða tvö um nótt.