139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn fara fram á það við virðulegan forseta að við fáum einhverjar hugmyndir um það hversu lengi standi til að halda fundinum áfram inn í nóttina. Komið hefur fram að nefndafundir byrja í fyrramálið hjá einhverjum þingmönnum og væntanlega langur þingfundadagur aftur á morgun. Mér finnst því alveg lágmarkskurteisi gagnvart þingmönnum að gefnar séu einhverjar hugmyndir um það hversu lengi verður haldið áfram.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér að hv. þm. Róberti Marshall verði hleypt í ræðustól til að gera grein fyrir máli sínu. Það kom fram einmitt hjá honum, það mátti lesa úr orðum hans áðan af hverju þetta frumvarp þarf að keyrast í gegn, þ.e. hvort það væri betra að valdið væri hjá einum ráðherra (Forseti hringir.) í ríkisstjórninni frekar en þeim sem sæti í forsæti. Það er nákvæmlega (Forseti hringir.) það sem þetta fjallar um, valddreifingu (Forseti hringir.) eða miðstýringu valds.