139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið því að hv. þingmaður hefur á undanförnum dögum, sérstaklega kvöldum, fengið hjá okkur viðurnefnið skylmingaþrællinn, hann hefur verið hér á vaktinni og komið með athugasemdir sem stundum hafa virkað svolítið eins og þær væru til þess ætlaðar að koma illu til leiðar, einhverjum leiðindum.

En hér kemur hv. þingmaður í kjölfar umræðu um hættuna sem fylgi foringjaræði og gefur okkur framsóknarmönnum í raun heilbrigðisvottorð hvað það varðar. Ég þakka fyrir það. Hvað varðar spurninguna um afstöðu þingmanna flokksins hefur sú afstaða birst mjög skýrt í ræðum að undanförnu (Gripið fram í.) og ég geri ráð fyrir því að menn muni greiða atkvæði í samræmi við það.