145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðustu daga hafa komið fram upplýsingar í fjölmiðlum sem segja okkur að í kennaranámi eru nú allt of fáir einstaklingar til þess að viðhalda kennarastéttinni. Þá hafa líka komið fram upplýsingar um að aðeins um helmingur þeirra sem eru með kennsluréttindi starfi í raun við kennslu. Í dag var sú staða sérstaklega rædd á opnum fundi í Háskóla Íslands. Það liggur fyrir að það þarf fjölþætta lausn til þess að vinna gegn þeim vanda sem við blasir, það þarf samtal háskólasamfélagsins, kennarafélaga, ríkisins og sveitarfélaga. Í því samtali þarf að fara yfir inntak námsins, starfsvettvang og kjör.

Varðandi inntak námsins tel ég mjög mikilvægt að ræða hvort nauðsynlegt sé að lokaverkefni í kennaranámi til starfsréttinda séu akademísk, hvort allir þurfi rannsóknarmenntun. Ætti meistaranámið eða meiri hluti þess frekar að vera starfsnám úti í skólunum, jafnvel launað starfsnám? Gætu betri tengingar við skólana og það að allir verðandi kennarar færu í gegnum heilt skólaár í sínu námi tryggt betri tengsl og áhuga á skólastarfinu? Þá tel ég að sú kerfisbreyting sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi um Lánasjóð íslenskra námsmanna skapi tækifæri til að þróa hvata til að fjölga nemendum í greinum eins og kennaranámi fyrir öll skólastig. Þessir hvatar gætu annars vegar komið í gegnum styrkjakerfið eða skattalega hvata, eins og lagt er til í breytingartillögum meiri hlutans að skoðað verði sérstaklega.

Varðandi starfsumhverfið vill umræðan um starfsumhverfi í skólum oft verða misvísandi og hana þarf að dýpka í nánustu framtíð.


Efnisorð er vísa í ræðuna