138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara þessari spurningu með því að vísa til þess sem ég sagði áðan: Það þarf augljóslega að breyta um stefnu. Það þarf nýjar áherslur og við þurfum að blása fólkinu í þessu landi einhverja von og einhvern kjark í brjóst.

Tilefni þess að hv. þingmaður kemur hér upp er kannski það að sú óvænta staða er komin upp að ekki er eindreginn stuðningur við tillöguna sem nú er rædd af hálfu stjórnarflokkanna tveggja. Það leiðir hugann auðvitað að því hvort við höfum gert ákveðin mistök í ferli þessa máls. Jafnvel þótt við höfum verið sammála um hvernig ætti að vinna þetta í upphafi þá er þetta auðvitað hrikaleg staða að lenda í svona eftir á að formenn flokka séu á öndverðum meiði við fulltrúa sína í nefndinni. Það er auðvitað hrikaleg staða og það átti aldrei að bjóða upp á að slíkt gæti gerst.

Þessa stöðu hefðu menn átt að sjá fyrir (Forseti hringir.) og girða fyrir að þingið lenti í þeim vandræðum sem nú stefnir í. (Gripið fram í.)