138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir viðhafði mjög sterk orð hér í ræðu sinni, talaði um að þeir sem væru ósammála niðurstöðu þingmannanefndarinnar hefðu brotið niður starf hennar. Hún notaði sterk orð eins og „viðurstyggileg“ og „ógeðsleg“, að henni þætti þetta viðurstyggilegt og ógeðslegt og að hæstv. forsætisráðherra hefði gert lítið úr þingmannanefndinni með ógeðslegum og viðurstyggilegum hætti. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða ógeðslegu, viðurstyggilegu ummæla er hv. þingmaður að vísa til?

Þá vil ég jafnframt fá leiðsögn frá þingmanninum um eftirfarandi: Hvaða niðurstöður nefndarinnar telur hún þá að þingheimur geti sameinast um? Er það niðurstaðan um að enginn skuli ákærður, sem er vilji fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni? Er það niðurstaðan um að þrír ráðherrar skuli ákærðir eða er það niðurstaðan um að fjórir ráðherrar skuli ákærðir? Og koma þá engir aðrir möguleikar til greina í huga þingmannsins þess fyrir utan? Mér þætti vænt um að fá aðeins betur greitt úr því.