138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:20]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur spurninguna og svarið. Þetta var að einhverju leyti svar. Mig langar að útskýra nánar hvað ég á við með því að viðkomandi þingmenn neiti að gera upp hrunið. Þá á ég við það sem er í gangi í þinginu þessa dagana. Það er verið að flækja málið, það er verið að koma því þannig fyrir að það fái ekki eðlilega málsmeðferð í þingsal. Það er ekki verið að ræða málið á þeim forsendum að þingmenn ætli að greiða atkvæði um það, vísa því aftur til þingmannanefndarinnar og á endanum greiða aftur atkvæði um það hvort viðkomandi ráðherrar verði kvaddir fyrir landsdóm eða ekki. Það er verið að reyna með alls konar bellibrögðum að tefja málið og eyðileggja það, vísa því til annarrar nefndar en þingmannanefndarinnar. Hæstv. forsætisráðherra lagði til einhverjar vitnaleiðslur og sagðist hafa talað við Feneyjarnefndina í því efni þannig að það er í gangi alls konar feluleikur og bellibrögð með þetta mál. Þegar svo er finnst mér að viðkomandi þingmenn Vinstri grænna verði að gera það upp við sig hvort þeir styðji viðkomandi ríkisstjórn í svoleiðis bellibrögðum.

Atkvæðagreiðslan sem slík lýtur einfaldlega sínum eðlilegu lögmálum þegar þar að kemur og verður vonandi ekki á flokkspólitískum línum en meðferð þingmanna Samfylkingar og þingmanna Sjálfstæðisflokks á þessu máli í þingsal í dag og í gær er á þann veg að mér þætti fínt að fá svör við því hvað þingmönnum Vinstri grænna finnst um það.