138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágætisáminning. Ég ætla nefnilega að fá að biðja um utandagskrárumræðu við fyrsta tækifæri við hæstv. ráðherra um lífeyrismálin því að þar er ýmislegt sem ég mundi vilja heyra samfylkingarmanninn svara fyrir. En af því að hæstv. ráðherra nefndi áðan ræðu þáverandi formanns Framsóknarflokksins ætla ég að vitna í ræðuna til að útskýra að hæstv. ráðherra fór í rauninni rangt með. Þáverandi formaður Framsóknarflokksins sagði:

„Það vantar alls staðar fólk til starfa, ekki síst í þjónustustörf. Það er launaskrið, og kjarasamningar lausir. Ofan í þessa stöðu fara ráðherrar Sjálfstæðisflokksins offari og boða skattalækkanir sem væru olía á eldinn.

Við framsóknarmenn erum talsmenn skattalækkana þegar horft er til framtíðar, síðast lækkuðum við matarskattinn um helming en nú tek ég undir orð hagfræðinganna, það er þörf á varúð.“

Það væri kannski ráð að hæstv. ráðherra færi ekki alveg svona frjálslega með í yfirlýsingum sínum hvort heldur sem er varðandi stefnu í skattamálum eða kjör lífeyrisþega.