139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tillaga forseta er sjálfsögð og eðlileg og fundarstjórn er með ágætum og sú eina sem hún getur verið. Þegar hv. þingmenn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig ítarlega um mál þá sýnir forseti því skilning og skapar til þess svigrúm í fundarhaldinu með því að hafa lengri fundi. Hv. þingmenn sem hafa þessa miklu og ríku tjáningarþörf í málinu hljóta að vera forseta þakklátir. Ég bjóst við að menn væru almennt að biðja um orðið, þeir sem vilja ræða þetta mál, til að þakka forsetanum fyrir að standa svona að fundarstjórninni að orðið sé við óskum þeirra.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að sú skylda hvílir á þessu Alþingi að sýna þjóðinni að það sé verkum sínum vaxið og ljúki því sem hér liggur fyrir með sómasamlegum hætti þannig að hér sé ekki verkleysi uppi. Það liggur fyrir að stjórnarliðar, og ekki síst við forsætisráðherra fyrir hönd stjórnarflokkanna, höfum ítrekað boðið forustumönnum stjórnarandstöðunnar málamiðlanir í þessum erfiðustu deilumálum. Einstakir hv. þingmenn, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir og Siv Friðleifsdóttir, hafa að eigin frumkvæði lagt fram tillögu til sátta þannig að það er ríkur vilji meðal stjórnarliða og stórs hluta þingmanna til að leysa þessi mál á farsælan hátt með sanngjörnum málamiðlunum. En hann hefur ekki dregið nógu langt gagnvart öllum og við það situr.