139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:37]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um það hvort við eigum að halda kvöldfund eða ekki. Ég tel það sjálfsagt.

Ég vil geta þess að í dag er alþjóðlegi lýðræðisdagurinn. Sameinuðu þjóðirnar mæltust til þess að 15. september væri minnst sem alþjóðlegs dags lýðræðis. Ég tel rétt að við tökum þetta til okkar og minnumst þess líka. Við erum rík lýðræðisþjóð og ég tel að þjóðin taki það sem sjálfsagðan hlut að við séum það. En það er ekki víst að það sé sjálfsagður hlutur að við höldum lýðræði okkar. Mér finnst umræðan hér og hvernig við höfum hagað störfum okkar upp á síðkastið benda til þess að við virðum ekki það lýðræði sem við höfum í dag. Ég tel að ef þessu heldur áfram (Forseti hringir.) getum við grafið undan virðingu Alþingis og þar með því lýðræði sem við höfum. Ég hvet til þess að við höldum þann fund sem forseti hefur boðað og greiðum því atkvæði.