139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Stjórnvöld lofuðu því í hruninu og margoft síðan að allar innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum skyldu tryggðar. Og það var engin undantekning gerð þar vegna Sparisjóðs Keflavíkur eða vegna Byrs. Við þetta hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur staðið.

Allar innstæður sem menn áttu í Sparisjóði Keflavíkur, og í SpKef núna, eru tryggðar í Landsbankanum og allar innstæður sparifjáreigenda í Byr eru tryggðar í Byr hf. Þetta er nú allur glæpurinn.

Markmiðið með neyðarlögum og með aðkomu ríkissjóðs að málefnum þessara félaga var að lágmarka þann skaða sem glæfralegar fjárfestingar og útlán stjórnenda sparisjóðanna valda skattgreiðendum, ríkissjóði og sparifjáreigendum. Ég endurtek: Það er allur glæpurinn. Það verður samt nógu dýrt, nógu kostnaðarsamt eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði.

Við höfum farið yfir það vandlega á fundum viðskiptanefndar hver vandi sparisjóðanna er. Hann er mikill og hann er vel þekktur og hann er nákvæmlega sá sami og hjá stóru bönkunum. Þegar ríkissjóður fékk þessi tvö fjármálafyrirtæki í fangið var ljóst að þau voru einfaldlega gjaldþrota.

Sparisjóður Keflavíkur átti ekki fyrir glæfralegum útlánum til vildarvina og stjórnenda og eignir sjóðsins nægðu ekki til að tryggja innstæður viðskiptavina. Auðvitað er ólíkt mat seljenda og kaupenda ekkert nýtt í viðskiptum og það er ekki ástæða til að fjúka um koll vegna slíkra deilna, en það er hins vegar ábyrgðarhluti að gera því skóna að þeir sem áttu innstæður í þessum fjármálastofnunum geti tapað fjármunum og eins og hér er gefið í skyn sérstaklega vegna aðkomu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Það er klámhögg, frú forseti, en slík klámhögg víla pólitískar andstæðingar ekki fyrir sér að veita hér á haustdögum 2011. Ég get ekki annað, hæstv. forseti, en nefnt ársreikninga. (Forseti hringir.) Ársreikningar félaga eru mikilvægir en ársreikningar hv. alþingismanna og stjórnmálamanna um fjárreiður sínar (Forseti hringir.) og kosningaskuldir eru líka mikilvægir og ég kalla eftir þeim.