139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:04]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin spurning að menn eiga aftur að reyna innflutning og ræktun á sauðnautum. Gottuleiðangurinn á þriðja áratug síðustu aldar flutti hingað nokkra tugi dýra sem voru húsuð hér á Austurvelli fyrir utan Alþingishúsið og látin éta vitlaust fóður. (BJJ: Já!) Þess vegna náðu þau engri meltingu og drápust. Þetta er nákvæmlega það sama og hæstv. ríkisstjórn er að gera. Hún er að troða vitlausu fóðri í íslenska þjóð.

En margt mælir með því að við leggjum meiri áherslu á ákveðna ræktun til að mynda sauðnauta og þá er engin spurning að þar eru Vestfirðir fýsilegastir. Þar eru margir dalir þar sem hægt væri að gera slíka ræktunartilraun án þess að trufla nokkuð annað. Þetta hefur verið kannað nokkuð á undanförnum árum en þröskuldarnir í kerfinu eru skelfilegir og menn opna ekki dyrnar fyrir eitt eða neitt. Menn hafa einnig sótt um leyfi til að rækta hreindýr á Vestfjörðum. (BJJ: Það má ekki.) Nei, og þá spyr maður: Af hverju ekki? (BJJ: Það er bannað.) Af því bara. (BJJ: Já.)

Íslenskur hreindýrabóndi á Grænland, Stefán í Isortoq, fékk þá hugmynd að fá lánuð dýr úr stofninum á Austurlandi, hafa þau í nokkur ár og skila þeim svo aftur en þá stæði uppi nýr stofn á Austfjörðum sem mundi í engu væntanlega trufla lífríki Vestfjarða. Nei. (BJJ: Bannað.) En þarna liggja einhver sóknarfæri og kjötið af sauðnautum er frábært til matargerðar, (Forseti hringir.) auk þess sem ullin er afbragðshráefni.