139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ræðuhöld halda hér áfram og mér skilst að ég sé næst á mælendaskrá. Ég hef margítrekað komið hingað upp í ræðupúlt og óskað eftir viðveru fjármálaráðherra. Það hefur verið erfitt að fá ráðherra í pontu en það gerðist þó í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir sem fjármálaráðherra kom upp í og síðan áðan þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom upp í andsvar við einn ræðumann. Þetta er ekki mikið, en molar eru brauð líka og maður hefur gat greint það að fjármálaráðherra hafði ákveðna afstöðu til frumvarpsins sem fól m.a. í sér þá skoðun að frumvarpið sem við erum að ræða feli í sér mikla hagræðingu. Það sagði hann orðrétt fyrr í dag. Ég þarf að spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig sú hagræðing kemur út og hvar er hægt að nálgast hana. Einnig vil ég gjarnan fá að ræða við hæstv. forsætisráðherra um viðhorf, heiðarleg og hreinskiptin viðhorf sem komu hér fram af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og hvernig hún meti það viðhorf sem kom fram af hálfu eins ráðherra í ríkisstjórninni.