145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er svolítið galið að saka minni hlutann um málþóf þegar virðulegur forseti hefur ákveðið að slíta fundi tvo daga í röð af því að hv. meiri hluti (Gripið fram í: … samgöngunefnd.) hefur ekki komið sér saman um hvað eigi að gera. [Háreysti í þingsal.]

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það tveggja turna tal sem virðulegur forseti vill að eigi sér stað milli stjórnarflokkanna virðist ekki skila miklu. Einfaldlega virðist tilvistarkreppa í gangi og ég spyr hvort það jaðri ekki við stjórnleysi í landinu. Er eitthvað að gerast? Er ríkisstjórnarkreppa í gangi? Vilja stjórnarþingmenn ekki tala saman? Hvað er eiginlega í gangi?

Við viljum fá lista yfir forgangsmál. Við erum núna búin að biðja um það í fjóra til fimm mánuði. Þetta er sjálfsögð krafa, það eru þrjár og hálf vika til kosninga. Ætlar virðulegur forseti að slíta þingi undir lok þessarar viku eða munum við fara inn í kosningabaráttuna með þingið enn starfandi?