138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru svo margar ástæður fyrir því að breyta þarf um stefnu við stjórn landsins. Það kemur auðvitað ekki síst til vegna stjórnar efnahagsmála (Gripið fram í.) og þess atvinnuleysis sem hér grefur um sig. Það kemur til vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki fram að færa neinar sannfærandi tillögur um það hvernig skapa eigi ný störf.

Hv. þingmaður gerir að umtalsefni ágreining innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál. Það má kannski deila um það hvort þetta mál eitt og sér sé tilefni til þess að boða til kosninga. Ég lít þannig á að ef það þarf kosningar til þess að breyta um stefnu sé nauðsynlegt að halda hér kosningar sem allra fyrst. Meginatriðið er að okkur takist að mynda meiri hluta um nýjar áherslur við landsstjórnina, það er það sem þarf að gerast. (Gripið fram í.)