139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða sýni í hnotskurn í hvers lags óefni störf þingsins eru komin. Nú hefur verið upplýst að hæstv. forseta hefur láðst að setja inn á dagskrá þingfunda mál sem samkomulag var um að ræða og taka fyrir á þessum hauststubbi.

Hver ætli ástæðan sé fyrir því að mál séu að falla hvert á fætur öðru út af dagskránni? Það er sá fáheyrði atburður að formenn þingflokka hafi ekki fengið fund með hæstv. forseta Alþingis síðan á mánudag. Í dag er fimmtudagur. Það er fáheyrt, þegar menn eru að reyna að klára vinnuna á Alþingi, að forustumenn þingsins, formenn þingflokka og forseti Alþingis, skuli ekki hittast.

Nú hefur legið fyrir að formenn þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað beðið um slíkan fund. Við hljótum að spyrja okkur: Hvenær á að halda slíkan fund?