139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það hafi opinberast hér hverjir stýra í raun og veru störfum Alþingis þessa dagana. Það eru oddvitar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar framkvæmdarvaldsins. Við ræðum málefni þar sem flytja á enn fleiri verkefni frá þinginu yfir til framkvæmdarvaldsins og auka þar með valdheimildir forsætisráðherra.

Mál sem þessi hafa í gegnum áratugina verið unnin í prýðilegri sátt. Nú virðist vera búið að breyta um verklag og ný verkstjórn komin á. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort við megum ekki eiga von á því að þann 1. október nk. muni Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, koma fram með frumvarp um breytingu á þingsköpum og keyra það í gegn með góðu eða illu og við getum vænst þess að réttur okkar þingmanna til að veita framkvæmdarvaldinu almennilegt aðhald muni skerðast til mikilla muna. Ég á ekki von á öðru miðað við framgöngu hv. stjórnarliða en að þeir muni styðja oddvita ríkisstjórnarflokkanna í því að minnka enn frekar völd og áhrif Alþingis Íslendinga.