139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég sé þetta kannski ekki sem vandamál, þetta eru miklu frekar verkefni og spurning hvernig menn nálgast þau. Ég geri ráð fyrir því að úthald á einum ráðherra sé töluvert meira og kostnaðarsamara en á aðstoðarmanni og við að láta lengsta uppsagnarbréf sögunnar taka gildi sparast væntanlega einn ráðherra. Kannski er meiningin að fjármagna kostnaðinn við aðstoðarmennina með þeim hætti.

Það sem ég er að segja er að þar til maður sér fjárlagafrumvarpið verður maður að bíða með að gefa eitthvað út um það með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að mæta þeim kostnaðarliðum sem af þessu leiðir. Ég veit af reynslu minni í fjárlaganefnd að það verður erfitt. Ég sé enga nýja tekjustofna verða til, (Forseti hringir.) ekki enn þá í það minnsta, þannig að leiðin til þess að mæta þessu er bara að skera meira burtu (Forseti hringir.) af Alþingi eða öðrum ráðuneytum.