139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi líka að í vor hefði verið stofnuð tvö ný ráðuneyti, en það átti að stofna þrjú. Fyrir því var hins vegar ekki þingmeirihluti. Það var ekki þingmeirihluti fyrir því að stofna hér atvinnuvegaráðuneyti. Ef farið yrði eftir því frumvarpi sem nú liggur fyrir — en því hefur verið gjarnan haldið á lofti að þar sem meiri hlutinn hefði hér völd væri meiri hluti í þinginu og því væri ekkert óeðlilegt að þetta yrði bara gert hjá framkvæmdarvaldinu, málið þyrfti hvort sem er ekkert að koma inn í þingið af því að framkvæmdarvaldið hefði meiri hluta hvort sem er, það væri kjörið með meiri hluta. Það hefur hins vegar komi í ljós og kom síðast í ljós í vor að það er ekki alltaf þannig þótt stjórnin eigi að hafa meiri hluta að sá meiri hluti vilji fylgja akkúrat því sem stjórnin er að bardúsa og setja fram. Þar af leiðandi spyr ég hvort ekki sé verið að taka þennan möguleika, þennan varnagla sem þingið hefur til þess (Forseti hringir.) að sýna hvort það er meiri hluti fyrir málum eða ekki.