139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stóð í atvinnurekstri í mörg ár áður en ég fór á þing og var með margt fólk í vinnu. Ég bætti við mig starfsfólki þegar verkefnin voru þannig að ég þurfti einhvern til að leysa þau. Ég bætti líka við mig starfsfólki ef það voru verkefni til staðar sem ég taldi mig ekki ráða við, hefði ekki þekkingu eða getu til að ráða við. Kannski er hæstv. ríkisstjórn að uppgötva það, virðulegi forseti, að hún hefur ekki þekkingu eða vit á því sem hún er að reyna að basla við og þarf þess vegna að hafa rýmri heimildir til að ráða sér aðstoðarmenn og ráðgjafa en fyrirrennarar þeirra sem stýrðu ráðuneytunum í landinu. Ég veit ekki hver ástæðan er en þegar ég var í rekstri var það út af þessu.

Ég hafði samt sem áður alltaf vaðið fyrir neðan mig í þeim efnum og steig ekki slík skref nema ég teldi mig hafa efni á því, nema ég teldi að þau færðu mér auknar tekjur þannig að ég gæti staðið undir því í rekstrinum. Ég setti ekki fram svona blankó plögg eins og koma hér frá þessari ríkisstjórn þar sem kostnaðargreiningin er algerlega ónóg og ekki neinar forsendur gefnar fyrir þeirri niðurstöðu sem þar liggur, rúmum 100 millj. kr. og hér hafa heyrst miklu hærri tölur.

Það er auðvitað alger tvískinnungur, virðulegi forseti, í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og hv. þingmanna sem hafa talað um launalækkanir í samfélaginu, að það eigi að lækka laun. Aðstoðarmönnum þingmanna af landsbyggðinni var sagt upp. Hafa þingmenn þó mjög víðfeðm kjördæmi til að fara um og var alveg réttlætanlegt að þeir hefðu einhverja aðstoð í þeim efnum. Í þessu felst alger tvískinnungur að það sé allt í lagi að tvöfalda (Forseti hringir.) þann kostnað sem þar var um að ræða fyrir aðstoðarmenn ráðherra í ríkisstjórn Íslands.