145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:36]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka forseta fyrir upplýsingarnar í ræðu hans áðan. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem talað hafa á undan að það sætir nokkurri furðu að við séum komin hér aftur með sama dagskrárblað og í gær af fundinum sem slitið var í gær vegna óvissu um framhaldið. Fundur formanna fór fram upp úr hádegi í gær og þá stóð til að framhald yrði á en ekkert hefur frést. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. forseti hefur þó heyrt í forsvarsmönnum ríkisstjórnarflokkanna.

Þetta er orðið vandræðalegt, við erum komin fram yfir starfsáætlun, við erum komin inn í kosningabaráttu og okkur þingmönnum berast boð um að mæta á fundi hingað og þangað um landið. Okkar hlutverk hér er auðvitað ekki að vera starfsmenn stjórnmálaflokkanna heldur erum við í þjónustu almennings og þurfum að sinna þingstörfum á meðan þing situr. Ég bið hæstv. forseta innilega að hafa það í huga þegar hann ákveður dagskrána og framhaldið.