139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

578. mál
[13:34]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfisvernd. Nefndarálitið er frá utanríkismálanefnd.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008, um breytingu á svokölluðum XX. viðauka við EES-samninginn frá 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 916/2007 um breytingu á reglugerð nr. 2216/2004 um staðlað og varið skráakerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 25. október 2008. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Markmiðið með reglugerðinni er að gera tæknilega breytingu á kerfi fyrir skrá yfir losun gróðurhúsalofttegunda sem er hluti af svonefndu ETS-viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, um efnið, en það er 710. mál á þskj. 1229. Það frumvarp er nú til umfjöllunar í umhverfisnefnd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.