145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni yfirlýsingu frá rektorum háskóla landsins sem birtist í blöðum í dag þar sem segir, og þeir undirrita allir, að þeir lýsi þungum áhyggjum yfir málefnum háskóla landsins þar sem fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017–2021 geri ráð fyrir heildarútgjaldaaukningu til uppbyggingar ýmissa innviða samfélagsins en skilur háskólana eftir.

Það hefur komið fram hjá OECD að íslenskir háskólar séu verulega undirfjármagnaðir og fái helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar annars staðar á Norðurlöndunum. Við höfum rætt það hér áður og það hefur m.a. verið stefna Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern nemanda verði sambærilegt við Norðurlöndin árið 2020, en miðað við ríkisfjármálaáætlun sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa lagt fram verður svo ekki. Það dylst engum að rannsóknirnar sem þar fara fram eru drifkraftur allra framfara í landinu og háskólanám er auðvitað lykill að því að þjóðum vegni vel.

Í yfirlýsingunni segir að háskólarnir séu ómissandi fyrir þróun íslensks samfélags og undir það get ég tekið því að þeir búa alla undir atvinnulífið, ekki bara ungt fólk heldur alla sem háskólanám vilja stunda, og gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur þegar út á vinnumarkaðinn kemur. Hér er fullyrt að áframhaldandi undirfjármögnun háskólastigsins muni hafa neikvæð áhrif á háskólanám, rannsóknir, menningarstarf og nýsköpun og þar með samfélagsþróun og samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Í yfirlýsingunni er fullyrt að við óbreytt ástand geti háskólarnir ekki starfað áfram með eðlilegum hætti og þeim sé raunverulega stefnt í hættu. Það er hvatning til okkar stjórnmálamanna sem ætlum að bjóða okkur fram aftur að fjárfesta í innviðunum, fjárfesta í háskólunum og fyrir því höfum við vinstri græn talað og munum að sjálfsögðu gera fáum við til þess umboð frá kjósendum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna