145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mér varð svolítið tíðrætt um Reykjanesskagann og svo þegar hv. þingmaður fór að tala um almenningssamgöngur og jafnvel flugsamgöngur, nefndi þær reyndar ekki, en hún nefndi lestina sem við erum að tala um og þá á hún við frá Suðurnesjunum og inn í Reykjavík, þá kveikti ég á perunni, ég gleymdi að tala svolítið um flugið. En kannski vill maður ekkert fara voðalega mikið út í innanlandsflugið, það jarðsprengjusvæði, sem er mjög viðkvæmt málefni. Ég held að lest væri frábær samgöngumáti frá flugstöðinni eða frá Suðurnesjum inn í Reykjavík, en það er gríðarlega dýrt. Það hefur verið reiknað út og þetta hefur verið í umræðunni síðustu ár og kannski er það framtíðin fyrir okkur að gera þetta svona. Ég tala nú ekki um ef það skyldi fara þannig að innanlandsflugið yrði flutt til Keflavíkur sem ég teldi sjálfur ekkert rosalega slæmt. Ég held að það yrði bara frábær lausn á málum innanlandsflugsins. En það eru ekki allir sammála mér um það. Þannig er það og við þurfum að finna lausn á því.

Almenningssamgöngur, við eigum auðvitað að efla þær mikið. Ég heyrði það í síðustu viku þegar ég var á ungmennaráðstefnu á Hvolsvelli að aðalmálið hjá ungmennaráðum á Suðurlandi voru almenningssamgöngurnar, strætóinn, að geta komist oftar á milli yfir daginn og annað. En þetta er gríðarlega dýrt. Það var reyndar gerður samningur á síðasta kjörtímabili ef ég man rétt um að landshlutasamtökin mundu sjá um almenningssamgöngur, þau gera það í rauninni, en langarðsömustu leggirnir voru teknir út. Það er gríðarlega erfitt að halda úti almenningssamgöngum þegar teknir eru bestu bitarnir og kúfurinn tekinn af þannig að það er ekkert eftir fyrir hina. En við þurfum að efla almenningssamgöngur mjög mikið. Það er alveg ljóst að það er kallað eftir því.

Hvað varðar hjólreiðastíga, þá er það bara frábær hugmynd. Það er núna verið að gera hjólreiðastíg frá Grindavík og alveg upp að Stapa. Það mun breyta miklu því að hjólreiðar eru alltaf að sækja sig í veðrið á Íslandi (Forseti hringir.) þrátt fyrir að veðurfarið sé kannski ekki alveg til þess fallið.