145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög upplýsandi og góða ræðu, enda er hv. þingmaður mjög vel inni í málaflokknum, ekki nema von. Það sem vakti upp spurningar hjá mér var þessi munur milli þess sem þarf til að viðhalda vegum og þess sem lagt er upp með í frumvarpinu eða í ályktuninni. Ég skil ekki — kannski er ég bara búin að búa allt of lengi í útlöndum, búin að vera allt of mikið í Noregi eða ég veit ekki hvað — af hverju aldrei er hægt að horfast í augu við þann raunveruleika sem við búum við, þ.e. að það kostar peninga að halda úti vegakerfi. Það þarf að leggja fjármuni í að vera með almennilega vegi, við erum bara að tala um viðhald á vegum. Mér þykir ekkert óeðlilegt að við reynum að hlúa að þeim innviðum sem við höfum. Við erum að koma út úr erfiðu tímabili. Hér varð hrun, eins og oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól (Gripið fram í.) — já, með vissu. Að sama skapi finnst mér eins og aldrei hafi verið góðir vegir á Íslandi. Það er eins og aldrei hafi verið heildarsýn í vegamálum á Íslandi. Þetta stef, að aldrei sé hægt að gera áætlanir sem haldast, aldrei hægt að sætta sig við það að hlutirnir kosti — hefur þetta alltaf verið svona? Er þetta alltaf sama vandamálið sem við erum að fást við í íslenskri pólitík? Er þetta hluti af íslenskri menningu sem tengist veðrinu, að við þurfum alltaf að vera að skipta um skoðun? Af hverju er ekki bara hægt að svara því kalli að það þurfi 11 milljarða í viðhald á vegum?