145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:28]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágætisræðu og góða yfirferð, fyrir að minnast aðeins á Vestfirði sem er eitt af mínum uppáhaldssvæðum og svo fara um Vesturland. Við deilum skoðunum um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnunum um það svæði líka.

Ég staldra við og í framhaldi af ræðu minni í morgun vil ég taka undir orð hv. þingmanns um Sundabrautina vegna þess að ég held að hún sé eitt brýnasta samgöngumannvirki í þessum landshluta. Hún tengir saman Suðvesturland, Vesturland, Vestfirði og Norðurland eftir atvikum. Um útfærsluna á Sundabrautinni má í sjálfu sér ræða endalaust. Við gætum rætt þann möguleika að setja hana á jarðgangalistann sem hér var til umræðu fyrr í dag vegna þess að eins og hv. þingmaður minntist á hefur Sundabrautin verið mjög lengi í umræðu, í 25 ár eða lengur. Á einhverjum tímapunkti var rætt um að setja hana í jarðgöng. Ekki man ég af hverju þeirri umræðu var ýtt út af borðinu en ég held að með þeirri hugmynd mætti leysa ýmis vandamál sem varða innsiglingu inn í Kollafjörð og aðra firði á Sundunum.

Hv. þingmaður minntist á gjaldtöku. Þá vil ég segja að ég held að það sé mjög skynsamlegt að skoða þá kosti að fara með Sundabrautina í einhvers konar einkaframkvæmd í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila með gjaldtöku eða innheimtu á gjöldum sem er kannski efni í aðra ræðu, þ.e. hvers konar aðferðum maður beitir við innheimtuna.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar: Er einhver ástæða til þess að samþykkja þá tillögu meiri hlutans (Forseti hringir.) að ýta Sundabrautinni út af þeirri samgönguáætlun sem nú er til umræðu? Er nokkur ástæða til að bíða eftir næstu áætlun?