145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ágætt að hún hnykkti á því, af því að það var kannski svolítið óljóst í mínu orðalagi, að þegar kemur að fagmennskunni átti ég alls ekki við það að sérfræðingar að sunnan ættu að vera fagaðilar í þessu, heldur var ég einmitt að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að auka enn frekar vægi þeirra sem eru sérfræðingarnir úti á akrinum. Ég held að það sé samt ágætt að minna á Vegagerðina í því samhengi, það er mjög mikilvægt að hafa heildarsýnina sem þar er yfir allt landið. Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir að minnast á sóknaráætlun landshlutanna, því að ég held að það hafi verið fyrirmyndartæki sem því miður fékk kannski ekki að verða það sem það hefði getað orðið. Þá nálgun og það verkfæri ætti að endurvekja og setja enn meiri kraft og styrkingu í.

Mig langar á þessum síðustu sekúndum að minnast aðeins á loftslagsmálin. Við höfum oft talað um að stóru tækifæri Íslands til að draga úr losun séu í samgöngumálunum og með orkuskiptum í samgöngum. Mér hefur stundum fundist sú umræða vera miðuð við höfuðborgarsvæðið og langar að heyra í hv. þingmanni með það. Hvar þarf að byrja og hvernig getum við byggt þetta upp svo að umhverfisvænni (Forseti hringir.) samgöngumátar verði ekki bara eitthvað sem við getum talað um hér á höfuðborgarsvæðinu heldur á landsvísu og einmitt líka í hinum (Forseti hringir.) dreifðari byggðum þar sem ég held að fólk vilji líka leggja sitt af mörkum til að draga saman í losun.