139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara bæta við það sem ég sagði áðan að það var skilningur minn í hv. umhverfisnefnd þegar meiri hluti hennar ákvað að afgreiða út frumvarp um umhverfisábyrgð að það væri gert vegna þess að meiri hlutinn teldi umfjöllun um málið lokið en engin vissa væri fyrir því að málið yrði afgreitt á haustþingi og það yrði að ráðast. Það var einhvern veginn minn skilningur á þessu máli.

Ég vildi síðan geta þess almennt, ég þekki ekki önnur mál sem hér hafa verið rædd eða forsögu þeirra, að auðvitað er það svo að á fáum dögum á haustþingi í september geta hv. þingmenn og hv. nefndarmenn í einstökum nefndum ekkert endilega vænst þess að unnt sé að ljúka öllum þeim málum sem þeir hafa hug á. (Forseti hringir.) Það hlýtur alltaf að vera einhvers konar samkomulag um það hvernig forgangsröðunin er ákveðin þó að hún kunni auðvitað að vera umdeild.