139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[11:03]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það og vísa í orðin í ræðu minni að það var ekki bragur á þessari afgreiðslu málsins 1. september síðastliðinn, á örstuttum fundi þar sem álitið var hvorki kynnt, lesið upp né rætt.

Ég spyr: Til hvers var nefndin að leita álits ráðuneytisins ef ekkert átti að gera með það? Við vorum í þeirri góðu trú að þarna ætti í sátt og samlyndi að vinna málið áfram og ræða allar hliðar þess. Það var ekki langt í það en það var slegið á hendurnar. Það var hægt að ná sátt í þessu máli og það átti eftir að klára umræðuna. Það var ekki gert. Ég ítreka ósk mína eða kröfu um að málið verði tekið á dagskrá. Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti réttilega á þá tekur frumvarpið gildi 1. janúar. Okkur gefst nægur tími í október, nóvember og desember til að klára málið, athuga hvort það séu fletir á því og klára það fyrir jólahlé ef vilji stendur til þess.

Aðalatriðið er að reyna í nefndum að leita sameiginlegrar niðurstöðu og sátta en ekki að keyra fram með ofbeldi.