145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Fjölmiðlar hafa sagt frá því að 11 fylgdarlaus börn bíði úrlausnar sinna mála hér á landi. Samkvæmt talsmanni hælisleitenda hjá Rauða krossinum líður sumum þeirra svo illa að þau tala um að þau vilji ekki lifa lengur, það eina sem þau dreymi samt um sé að fá að lifa eðlilegu lífi og ganga í skóla. Það er öll heimtufrekjan.

Við getum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki látið það eftir þeim. Þeim finnst að enginn vilji þau og ég er ekki hissa á því. Sem Íslendingar og alþingismaður skammast ég mín mikið fyrir að svona skuli vera komið fram við börn sem koma hingað til lands að leita skjóls hjá okkur.

Það kemur einnig fram að þessi börn búa við óásættanlegar aðstæður innan um eldra fólk þar sem öryggi þeirra er ekki tryggt. Barnaverndaryfirvöld í Reykjavík eiga með réttu að bera ábyrgð á öllum fylgdarlausum ungmennum sem sækja um hæli í Reykjavík en þau gera það ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Herra forseti. Hvernig samræmist þetta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er ekki aðeins mjög mikilvægur mannréttindasamningur heldur einnig lög í þessu landi? Í barnasáttmálanum og lögum nr. 19/2013 segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.“

Viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð — erum við að gera það gagnvart þessum börnum sem til okkar hafa leitað eftir skjóli og aðstoð og biðja ekki um annað en að fá að lifa eðlilegu lífi eins og önnur börn þessa lands? Ef við getum ekki sýnt mannúð eigum við þá ekki a.m.k. að fara að lögum? Það er sorgleg staðreynd að við erum að bregðast þeim börnum sem hingað leita. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna