145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:52]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög áhugaverður vinkill sem hv. þingmaður kemur með, þ.e. hversu mikil áhrif aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti haft á samgöngukerfið. Nú veit ég ekki hvort það er mýta, en mér hefur alla vega verið sagt að eitt af því fyrsta sem Evrópusambandið geri sé að styrkja innviði þess lands sem ákveður að ganga í það. Með því að styrkja innviði erum við í raun að styrkja það samfélag sem þar er innan borðs og þar af leiðandi að skapa frið. Evrópusambandið er í grunninn mikil friðarsamtök sem hafa jöfnuð milli landa að leiðarljósi. Ég man ekki hvort það var hv. þingmaður sem talaði um vegina í Austur-Rúmeníu, að þeir hafi jafnvel verið skárri en vegirnir á Íslandi. Nú hef ég sjálf ferðast mjög mikið og ég get fullyrt að vegirnir bæði í Armeníu og Georgíu, í Íran og Austur-Tyrklandi eru skárri en margir fjallvegirnir hérlendis, einfaldlega út af því að þar eru peningar settir í vegakerfið, því að þungaflutningar fara þar um.

Við erum á eyju sem þýðir að flugvellir og skipaflutningar eru eina leiðin til að flytja varning inn og út úr landinu. Þrátt fyrir það þurfum við líka að geta ferðast um og hvað varðar það jöfnunarhlutverk sem vegakerfið á að gegna þá held ég að Evrópusambandið sé að gera mjög góða hluti í því. Það væri gaman að fá að fræðast meira um þetta því að eins og hv. þingmaður kom inn á áðan hefur hún sjálf ferðast um landið til að biðja um metnaðarfull verkefni. Ég spyr hvort einhverjir samgöngustyrkir hafi verið í boði til að byggja upp þau mannvirki sem við þurfum að hafa til að stuðla að þeim jöfnuði sem Evrópusambandið vill stuðla að.