138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson heldur því fram að við þorum ekki að taka umræðuna. Ég hef flutt hér ítarlegar ræður við báðar umferðir þessa máls og tekið umræðuna. (BjarnB: Ekki um matskenndu ákvæðin.) Nei, ekki um matskenndu ákvæðin, en ég er að lýsa sannfæringu minni. Ég skil ummæli hv. þingmanns þannig að það að þora ekki að taka umræðuna sé að taka hana ekki nema á þeim grundvelli sem hv. þingmaður leggur sjálfur fram.

Svo verð ég að ítreka það enn og aftur varðandi þetta pólitíska uppgjör sem hv. þingmaður talar um og biðja hann um að lesa greinargerð Ólafs Jóhannessonar með frumvarpinu 1962 vandlega þar sem hann fjallar um grunninn að þessum lögum. Það hef ég lesið í þaula og er sammála niðurstöðu hans.