138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Áður en rannsóknarnefndin lauk störfum sínum samþykkti Alþingi að sett yrði á laggirnar sérstök þingmannanefnd sem átti að gera tillögur um viðbrögð Alþingis við þeim niðurstöðum sem kæmu frá rannsóknarnefndinni, m.a. að því er lýtur að ábyrgð ráðherra. Það var niðurstaða þingsins og um hana var samstaða. Það hlaut því öllum að vera ljóst að ef niðurstaða rannsóknarnefndarinnar yrði á þá leið að menn hefðu gerst brotlegir við lög hlyti þingið að taka á því (Gripið fram í: Nei.) í framhaldinu. Eða var þetta allt saman sýndarmennska strax frá upphafi?

Það er annað atriði sem ég vil líka gera athugasemd við í máli hv. þingmanns. Hann sagði hér áðan og fór að tala um núverandi ríkisstjórn, að ef hún sæti út kjörtímabilið væru þau meintu brot sem hann gerði að umtalsefni um gengisdóminn fyrnd. Það stenst ekki 14. gr. ráðherraábyrgðarlaganna sem segir um fyrninguna að þó að hún sé þrjú ár þá fyrnist sök þó aldrei fyrr en í fyrsta lagi sex mánuðum eftir næstu almennu þingkosningar eftir að hið meinta brot hefur verið framið, þannig að það skal líka vera rétt.

Svo er auðvitað líka nauðsynlegt að halda hinu til haga að það mál sem hér er til umræðu byggir á vinnu rannsóknarnefndar, mikilli vinnu, ítarlegri vinnu, og þingmannanefndar í kjölfarið, en þingmaðurinn er í sínu máli í raun að segja: Við skulum bara fara með þetta alltaf í pólitískan farveg ef við erum ósátt við störf og stefnu ríkisstjórnarinnar án þess að það sé þá byggt á einhverri ítarlegri rannsókn, eins og hér er gert.

Þetta er auðvitað alveg einstætt mál. Hér varð hrun, fram hjá því verður ekki horft. Í því máli sem þingmaðurinn er að tala um og nefnir sem dæmi, um gengisdóminn, og að hætta hafi verið fyrir hendi fyrir bankakerfið á öðru hruni, það varð ekkert hrun mér vitanlega en það mætti kannski setja rannsóknarnefnd í það til að kanna (Gripið fram í.) hvort það hafi orðið hrun áður en menn taka ákvarðanir (Gripið fram í.) um næstu skref. (Gripið fram í.)