138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns varð þetta einmitt kristaltært í hvaða stöðu við þingmenn erum. Við höfum auðvitað mjög misjafnt sjónarhorn á þetta mál. Hv. þingmaður rökstuddi alveg ágætlega af hverju hann komst að þeirri niðurstöðu sem hann hefur komist að og aðrir komast að annarri niðurstöðu. Mér finnst þetta að mörgu leyti kannski mjög svipað og ég get ímyndað mér að sé hjá dómurum í Hæstarétti. Þeir komast ekki alltaf allir að sömu niðurstöðu í málum sem eru lögð fyrir Hæstarétt og þeir verða engir óvinir á eftir, þá væri Hæstiréttur ekki starfhæfur. Við erum í mjög svipuðu ferli held ég. En þetta var bara svona almennt.

Mig langar að gera athugasemd við það að hv. þingmaður skyldi segja, kannski dálítið galgopalega, ég veit það ekki, að ég hefði í ræðu minni verið að freista þess að kenna Alþingi um það sem gerðist í íslensku samfélagi. Það var ég ekki að gera. Tilefni þess hins vegar að ég fór að skoða hvernig Alþingi hagaði sér ári fyrir hrunið var það að Alþingi hefur mjög mikið vald yfir ráðherrum. Mér finnst það ákveðinn grundvöllur þessarar ákvörðunar að skoða hvort Alþingi eigi að nota landsdóm, að skoða hvort Alþingi hafi áður reynt á einhvern hátt að nota þetta vald. Ég komst að þeirri niðurstöðu að í aðdraganda hrunsins eða ári fyrir hrun hefði Alþingi ekki gert það. Það er síðan liður í þeirri niðurstöðu sem ég hef komist að að við eigum þá ekki að kæra. Mér finnst betur við hæfi að við nýtum okkur niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis til að bæta okkur. Og mér fannst líka yfirferð mín yfir aðgerðir af hálfu Alþingis í aðdraganda hrunsins liður í því að styðja þá mynd sem kemur fram í rannsóknarnefndarskýrslu Alþingis að það var auðvitað mjög margt (Forseti hringir.) sem var að í íslensku samfélagi og í þessari umræðu finnst mér við ekki mega gleyma því.