139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég lít á þessa dagskrá nýs fundar. Ég sé að hæstv. forseti hefur ekki orðið við tilmælum mínum frá því í morgun og reyndar líka tilmælum frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að taka á dagskrá fundar í dag 711. mál, ökutækjatryggingar. Ég hlýt að álykta sem svo og mótmæla því að einn stjórnmálaflokkur á Alþingi, Framsóknarflokkurinn, skuli geta beitt neitunarvaldi með þessum hætti og komið þannig í veg fyrir að Alþingi fái að ræða brýn mál sem varða öryggi þúsunda vegfarenda í landinu.

Frú forseti. Ég er undrandi á þessu. Hv. viðskiptanefnd hefur lagt mikla vinnu í þetta mál og ég kalla eftir viðbrögðum forseta við því hvernig farið er með vinnu þingmanna á þessum vinnustað.