139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikilsverðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands ná nú fram að ganga. Djúpstæður ágreiningur var í þinginu, sérstaklega um 2. gr. frumvarpsins. Málamiðlun náðist í því ágreiningsefni og ég fagna því.

Hins vegar hlýt ég að segja þá skoðun mína að það kunni ekki góðri lukku að stýra að skipta okkur í þinginu í lið sigurvegara og tapara þegar málamiðlun næst í ágreiningsmálum. Ég furða mig á þeirri áherslu sem þeir sem flytja fréttir héðan úr þinginu leggja á þetta atriði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég var með fyrirvara í nefndaráliti vegna þess að ég er ekki hlynnt því að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir og það hefur ekkert breyst í þeim efnum þó að þessar upptökur hefjist ekki fyrr en 1. janúar 2012.