139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:18]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það kemur mér eiginlega ekkert á óvart að hv. þm. Þór Saari skuli ekki geta stutt þessa tillögu þrátt fyrir langar ræður hans um lýðræðishalla og skort þingmanna á skynjun fyrir lýðræði og vanvirðu þeirra fyrir öllu því góða í tilverunni.

Með einhverjum hætti virðist hv. þm. Þór Saari gera sér far um að vera á móti öllum hlutum sem ekki eru beinlínis upprunnir í hans eigin heilabúi. Það er leitt og ég vona að það fari af honum því þingmaðurinn er á ýmsan annan hátt prýðilega fær og hefur komið með ágætar tillögur inn í þingið þó að ég sé ekki mjög hrifinn af tillögum hans um fleiri fulltrúa í sveitarfélögum. Mig minnir að það hafi verið 61 í Reykjavík, það er sem sagt tveimur mönnum færra en sitja á Alþingi og ef það fer saman að hafa mjög marga fulltrúa í sveitarstjórn og hafa sveitarfélögin mjög lítil þá er kannski komið að einhverri nýrri aðferð við að hafa lýðræði í sveitarfélaginu þannig að fulltrúarnir séu svona nokkurn veginn jafnmargir og íbúarnir í sveitarfélaginu. Það má eiginlega kalla það beint fulltrúalýðræði.

Af því að þingmaðurinn minntist á að aðstæður gætu komið í veg fyrir að lítil sveitarfélög sameinuðust stærri sveitarfélögum, vil ég taka fram að gert er ráð fyrir því í þessari tillögu og er ekki frumlegt. Ég held að það ákvæði sé tekið beint upp úr núverandi lögum og það er svona, með leyfi forseta:

„Undantekningu frá þessu ákvæði skal gera ef sérstakar aðstæður hindra það að mati ráðuneytisins að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags.“