138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki á því að þingmannanefndin gangi of langt í þeim ályktunum sem hún dregur af efni rannsóknarskýrslu Alþingis, alls ekki. Það liggur jafnframt fyrir að téðir verkferlar, ákvarðanir og annað sem gerðist í aðdraganda þessarar einkavæðingar liggur ekki fyrir allt saman sem opinberar skjalfestar upplýsingar. Ég tel mikla þörf á því að það komi fram og frá því greindi ég á fundi þingmannanefndarinnar. Það er einfaldlega mín afstaða og okkar flutningsmanna tillögunnar að svo sé og með því er á engan hátt verið að draga úr eða gera lítið úr þeirri vinnu sem fram hefur farið.

Það er fjarri mér að ég sé hér, með vísun til þess að ég er orðin næstum því elsti hundur í þessum þingsal, að gera lítið úr því að ég hafi verið í andsvörum við tiltölulega nýlegan en mjög reynslumikinn hv. þingmann.