138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir skýringar hans. Í fyrsta lagi vil ég koma með þá athugasemd að mér finnst ekki hafa verið brugðist við meginathugasemdum úr umræðunni, t.d. um saknæmisskilyrðin. Það er ekkert annað gert í þessu nefndaráliti en að prenta það upp sem stóð í þingsályktunartillögunni sjálfri um saknæmisskilyrðin.

Hér hefur komið fram harkaleg gagnrýni á að nefndin hafi ekkert lagt á sig til að sýna fram á að þau mistök og sú vanræksla sem rannsóknarnefndin fjallaði um jöfnuðust á við ásetning eða stórfellt hirðuleysi. Það stendur enn þá alveg óhreyft.

Hér er heldur ekki gerð ein tilraun til þess að bregðast við þeim alvarlegu athugasemdum sem fyrrverandi utanríkisráðherra hefur komið fram með síðustu daga, nefnilega að hér sé verið að gera henni að sök að hafa ekki brugðist við þegar ábyrgðin á viðkomandi athöfnum lá skýrt hjá öðrum, m.a. hjá núverandi forsætisráðherra. Þorir nefndin ekki að taka á því máli af því að hæstv. forsætisráðherra á í hlut? Hvað á það eiginlega að þýða að sleppa svona mikilvægum þætti málsins algjörlega og minnast ekki á hann einu orði?